Gleðilega páska! 🐰

Ég var að koma til baka til Svíþjóðar eftir langt ferðalag síðan í morgun! Búin að eyða páskadegi í flugvélum og á flugvöllum. En það er alltilagi þar sem ég er búin að eiga alveg frábæra viku!

Við fengum 10 daga páskafrí í skólanum sem ég eyddi í Þýskalandi. Marina, balletkennarinn minn skipulagði fyrir mig að fara og dansa með dansflokki í Bremerhaven (Stadtheater Bremerhaven). Þannig ég er búin að vera að dansa á fullu með þessum flotta flokki.
Krakkarnir í flokknum tóku mér opnum örmum og voru hreint út sagt yndisleg. Þau sýndu mér borgina, helstu kaffihús, útsýnisturininn og allt þar á milli. Ég hafði reyndar ekki mikinn tíma til að skoða mig um vegna þess að dagarnir voru mjög langir. Ég var komin upp í leikhús kl 9 á morgnanna og fór þaðan milli 7, 8 og 9 á kvöldin.
Ég gerði alltaf ballettíma á morgnana og svo var ég mjög heppin því ég fékk að vera með á æfingum sem voru fyrir sýningarnar þeirra líka. Ég var fyrir aftan að læra og einn daginn bað direktorinn mig um að koma inn fyrir eina stelpuna sem gat ekki tekið þátt á þeirri æfingu. Það var mjög heppilegt vegna þess að hann gat þá séð hvernig ég vinn og allt það. Eftir þá æfingu sagði hann að hann væri mjög impressed á mér.
En í þessum flokki eru stelpurnar flestar minni en ég. Hann sagðist vera með einn samning fyrir næsta ár og að honum leist mjög vel á mig nema að hann veit ekki enn hvort hann þurfi hávaxna eða lágvaxna stelpu fyrir næsta ár. Þannig það veltur allt á því hvað hann þarf. Hann sagðist samt vera mjög jákvæður með þetta og ætlaði að hafa samband við mig.
En sama hvort ég fái vinnuna eða ekki þá var þessi vika mjög endurnærandi. Það var gott að komast inn í þetta "vinnuumhverfi". Allir voru svo jákvæðir og glaðir að það lyfti mér alveg rosalega upp.

Heppilega var ég búin snemma einn daginn vegna þess að það var sýning hjá þeim um kvöldið. Ég ákvað að skella mér til Bremen sem er borg ca 40 min frá Bremerhaven. Mamma bjó þar í smá tíma þegar hún var lítil og sagði að ég þyrfti að sjá borgina. Ég tók lestina en var ekkert búin að pæla mikið í því hvað ég ætti að gera. Sem betur fer var wifi á lestarstöðinni þannig ég fór á google maps og leitaði af gamla bænum. Ég labbaði þar um í nokkra klukkutima, skoðaði í búðir, fór á kaffihús og mjög krúttlegan ítalskan veitingastað. Ég er mjög ánægð að hafa náð að fara þangað! Torgið í Bremen er yndislegt. Mér leið eins og ég væri komin langt aftur í tímann. Svo var maður að spila á harmonikku á götuhorni sem gerði þessa "gamaldagsstemningu" enn meiri!

En núna hef ég 2 daga til að gefa líkamanum smá frí og slappa af áður en skólinn byrjar á fullu aftur!

Ég sakna þess samt að vera heima yfir páskana. Allur góði maturinn, huggulegheit heima í stofu, páskalambið heima hjá ömmu og afa. En mamma og pabbi eru nú samt dugleg að senda mér snöpp þannig ég fæ smá brot af páskum þótt það sé ekki nema í gegnum símaskjáinn. 🐤

Design your blog - select from dozens of ready-made templates or make your own; simply “point & click” - Click here

Likes

Comments

Jæjaaa, liggur við að það líði ár og öld á milli hverra skrifa... hahaha.

En okei sem sagt, þessi mánuður hefur verið mjög mikið upp og niður hjá mér, andlega. Ég varð svo óvenju stressuð yfir öllu saman, aðallega framtíðinni og hvað ég muni gera á næsta ári o.s.frv. Mér leið eins og ég gerði varla annað en að skoða hvar ég gæti sótt um auditions, senda inn applications, taka aftur upp video (því ég var aldrei nógu ánægð með það sem komið var) og fá nei. Ég verð bara að vera hreinskilin, þetta var og er ógeðslega erfitt.
En ég veit líka að þetta mun alltaf vera svona og þegar uppi er staðið þá er allt þetta meira en þess virði. Það koma bara tímabil sem manni finnst allt vera ómögulegt, en er það ekki bara eðlilegt? Það er ekki alltaf hægt að vera upp á sitt besta.

En nóg um það! Ég er komin vonina og kraftinn aftur. Í rauninni eru síðastliðinu 2 vikur búnar að vera mjög góðar! Ég finn hvað ég hef mikla orku og er jákvæð.

Í síðustu viku fór ég til Toulouse í Frakklandi. Það var mjög áhugaverð ferð. Ég fór í prufu fyrir lítið danskompaní sem heitir Ballets De France.
Mér fannst prufan sjálf og þetta allt frekar "unprofessional". Prufan átti sem sagt að byrja kl 10 um morguninn og ég var aðsjálfsögðu mætt korter í 9, til að vera tímanlega og til að ná að hita vel upp. Ég beið fyrir utan í 45 mínútur... Það var allt læst þegar ég kom og ekki sálu að finna fyrr en 20 min eftir að ég var komin. Ég fríkaði smá út og hélt að ég væri á vitlausum stað en svo kom loksins eitthvað annað fólk sem var líka að fara í prufuna. Hálftima áður en prufan átti að byrja var loksins opnað hliðið og við fengum að koma inn.
Við fengum engin númer eins og vani er þegar maður er i prufu og í þetta skipti var aðeins ein ung kona að horfa á. Hún sat út í horni með hundinn sinn og tölvu og horfði á ballettímann með öðru auganu. Við gerðum bara ballettíma en hann var allur á táskóm en svo talaði hún aðeins við okkur eitt í einu. Hún ætlar að láta okkur vita fyrir apríl hver fær vinnuna... Þetta var allt saman frekar skrítið og ófagmannlegt en aðsjálfsögðu er þetta góð reynsla sem mun bara hjálpa mér ef eitthvað er!
Heppilega þá hafði ég tíma til þess að skoða borgina og labba um. Toulouse er yndisleg borg og það var frábært að koma þangað. Ég náði að rifja aðeins upp frönskuna en ég komst að því að ég þarf aðeins að glugga í gömlu bækurnar mínar áður en ég heimsæki Frakkland aftur!Eftir 4 daga fer ég síðan til Tékklands í audition fyrir National Theatre BRNO! Ég og tveir bekkjafélagar mínir fengum öll já til þess að koma í þessar prufur þannig við ætlum að ferðast þangað saman! Ég er mjög spennt og ég finn hvað ég verð meira og meira klár í slaginn og tilbúin að fara í prufur eftir því sem líður.


Likes

Comments

Ég veit að ég er ekki búin að skrifa hingað í dágóðan tíma. Síðastliðinn mánuður er búinn að vera alveg yndislegur. Ég sýndi á 3 jólasýningum í desember sem allar gengu eins og í sögu.

22des tók við 23 klt ferðalag og að lokum hitti ég fjölskyldu mína í Florida. Þar eyddum við tæplega þremur vikum í glampandi sól og blíðu. Alveg yndislegt.
Ég stoppaði síðan í tæplega 24 tíma heima á Íslandi í byrjun janúar áður en ég átti næsta flug til baka til Svíþjóðar. Ég er rosa ánægð að ég náði að plana daginn vel og náði að hitta bestu vinkonur mínar og ömmu og afa. Ég fann að ég hefði verið til í að vera í allavega nokkra daga í viðbót heima. Fá að knúsa Skugga hundinn minn aðeins meira, sofa í rúminu mínu, og hitta alla sem ég náði ekki að hitta. En stutt stopp var betra en ekkert stopp!

Það var samt gott að koma aftur til Svíþjóðar og ég fann hvað ég var endurnærð og tilbúin í slaginn. Það er akkurat vika síðan ég kom aftur og byrjaði í skólanum, en núna sit ég á flugvellinum í Frankfurt.

Ég tek það fram að ég skrifaði þessa færslu í gær en náði ekki að pósta henni fyrr en núna, degi eftir.

Í lok desember fékk ég nefnilega boð frá Hessisches Staatsballet í Wiesbaden um að koma í audition fyrir flokkinn þeirra. Þetta voru lokaðar prufur þar sem direktorinn valdi dansara, sem höfðu sótt um, til að koma og dansa fyrir sig live. Þetta voru mínar fyrstu prufur fyrir dansflokk. Ég mætti upp úr 9 í leikhúsið og "registration" byrjaði 09:30. Síðan fengum við tíma þangað til kl 11 til að hita upp. Prufurnar byrjuðu á ballettíma og við vorum um 50 stelpur.
Það var svo allt öðruvísi stemning í þessum prufum en þeim sem ég fór í fyrir listaháskólann Julliard í New York fyrir einu ári. Allir voru svo frjálslegir hérna. Margar voru bara í stuttermabol og stuttbuxum með slegið hár. Ég er náttúrulega vön að vera með hárið vel greitt, í balletbol og sokkabuxum. En það voru alveg margir líka í balletbol en flestir berfættir. Mjög áhugavert.
En allavega þá gekk mér vel í ballettímanum en ég fann fyrir því að ég var með þeim yngstu þarna. Og óreyndustu... Ég var þess vegna ekki að búast við því að fara eitthvað mikið lengra en svo var ég ein af þeim 18 (eða 20) sem voru valdnar til þess að halda áfram í prufunni.
Í seinni hluta prufunnar var okkur síðan kennt sóló (einstaklingsdans) úr verki sem heitir Infra eftir Wayne McGregor. Nei sko vávává!!! Ég er svoo ánægð að hafa fengið að læra þennan sóló, hann var ekkert smá fallegur og krefjandi. Við lærðum hann af einum af meðlimi flokksins. Hún er ekkert smá fallegur dansari og er búin að dansa með flokknum í langan tíma. Við fengum ca 30 min til að læra hann og u.þ.b 15 min til þess að fara yfir og undirbúa okkur til að sýna hann fyrir "dómarana" (direktorinn og kennarana).
Ég fór alveg út fyrir allan minn þægindaramma og dansaði þennan sóló af svo mikilli innlifunn sem ég vissi ekki einu sinni að ég hefði í mér.
Eftir þennan hluta áttum við að taka af okkur táskóna og síðan var okkur kennd nútímadansrútína.
Eftir þetta fengum við hálftímapásu meðan þau ræddu sín á milli hverjar þau vildu áfram. Það komust 4 (eða 5) stelpur áfram í síðasta hluta prufunnar sem var spuni og síðan viðtöl. Ég komst ekki áfram í það.

En þrátt fyrir að hafa ekki náð alla leið þá er ég samt ánægð með árángurinn sem ég náði og framviðstöðu mína í dag. Þetta er tækifæri og reynsla sem ég er svo þakklát fyrir. Aðsjálfsögðu er ég leið og svekkt yfir því að hafa ekki náð alla leið. Það er alltaf sárt að fá höfnun en þannig er brannsinn sem ég er á leiðinni út í. Það verða alltaf trilljón hafnanir og hindranir sem maður verður að stíga yfir. Ég ætla að taka allt sem ég lærði í dag, setja í reynslubankann og fara með í næstu prufur!

Ég kynntist einnig mörgu frábæru fólki í dag og fékk að skoða þennan fallega bæ, Wiesbaden, bæði í gær og í dag. Hver veit nema ég muni koma aftur hingað á ári liðnu! Það er allvega bókað að ég muni sjá eitthvað af þessu fólki aftur þar sem dansheimurinn er í raun lítill!

En núna er bara einn klt þangað til flugið mitt fer til Svíþjóðar! Það verður gott að taka balletsnúðinn úr og fara í sturtu! (Einhverntímann í nótt þegar ég kemst heim það er að segja, hahaha!)


Bless í bili!

Likes

Comments

Á laugardaginn átti ég 19 ára afmæli! Dagurinn byrjaði bara rétt eins og allir aðrir laugardagar, með æfingu og síðan repetoir fyrir sýninguna. Orkan í öllum var svo fáránlega mikil þennan dag, kennarinn var ekkert smá ánægður með okkur og talaði um það hvað það lá vel á öllum! Síðan var ég komin heim um 4 leitið og fór þá í sturtu og gera mig til vegna þess að við vorum nokkur búin að ákveða að fara útað borða í tilefni dagsins.

Þegar ég var tilbúin ætlaði ég að hitta Heidi í hennar herbergi og við ætluðum að taka nokkrar myndir. Þegar ég bankaði á dyrnar hjá henni þá opnuðu þau öll með afmælissöng, blómum, súkkulaði og smá kampavíni. Ég átti svo alls alls ekki von á þessu og þau náðu alveg að koma mér á óvart!! Þetta var ekkert smá gaman og sætt af þeim!! Þau höfðu verið búin að plana þetta í smá tíma og náðu alveg að fela þetta fyrir mér!
Síðan fórum við útað borða og eftir að hafa labbað í dágóðan tíma í Gamla Stan þá fundum við loksins stað sem var ekki röð út á götu á. Þetta kennir okkur allavega að panta borð á veitingastað á laugardagskvöldi! En við fengum bara hressandi göngutúr í hinu fínasta veðri og smá snjó! Við fengum okkur mjög góða hamborgara að borða og þau buðu mér!

Er bara svo þakklát fyrir þetta og þau gerðu daginn minn alveg yndislegan!!

Þetta er reyndar fyrsta afmælið síðan ég man eftir mér að ég var ekki vakin upp með afmælissöng og morgunmat í rúmið, en það er hefð hjá okkur fjölskyldunni. Það var smá skrítið og ég fann að ég saknaði þess. Svo líka að fá allar fallegu kveðjurnar frá öllum, fékk mig til að fá smá heimþrá en ég meina það er að sjálfsögðu gott að finna fyrir söknuði líka!

Þessi dagur var mjög velheppnaður og alveg uppfullur af umhyggju og kærleik <3

Likes

Comments

Þessi vika er búin að vera smá erfið vegna þess að ég hef verið óvenju þreytt bæði líkamlega og andlega. Er ekki búin að fá frídag í 2 vikur og álagið er búið að vera frekar mikið.

Á sunnudaginn kom ég sem sagt heim frá Gautaborg, það var seinkun á lestinni þannig ég var ekki komin til Stokkhólms fyrr en um hálf eitt um nóttina. Þá ætlaði ég að taka aðra lest heim kl 01, en svo endaði með því að lestin kom ekki. Það var ekkert smá skrítið, allt í einu hvarf bara tíminn og nafnið á lestinni og svo stóð allt í einu að næsta lest átti ekki að koma fyrr en kl 05 um morguninn.... Ég var ekkert smá þreytt þarna og fékk smá panikk þvi ég vissi ekki hvað ég átti að gera. Ég endaði með að taka taxa heim. Fólkið á lestarstöðinni var frekar óhuggulegt og mér leið mjög óþæginlega þarna. En allavega þá komst ég loksins heim en þá var klukkan orðin 02 og ég náði ekki að sofna fyrr en um hálf 3-3. Það var ekkert smá erfitt að vakna á mánudagsmorgun, ég hef ekki verið svona þreytt í mjög langan tíma. En ég reyndi að hugsa jákvætt og gerði mitt besta og að lokum var dagurinn búinn. Það var ekkert smá góð tilfining að koma heim og upp í rúm, vitandi það að ég fór í gegnum daginn sem mig langaði mjög mikið bara að sleppa alveg.

Við erum búin að vera á fullu að æfa fyrir jólasýninguna. Hún nálgast óðfluga og nú er allt að smella saman! Er orðin svolítið spennt, við erum með 3 sýningar sem er ekkert smá frábært!!

Það er byrjað að kólna mjög mikið og ég finn það sérstaklega í vöðvunum og liðum. Ég þarf að hita upp alveg extra vel fyrir allar æfingar.

Ég finn mjög mikið fyrir því að það er kominn desember. Það er allt orðið svo jólalegt og fínt! Ég er alveg byrjuð að hlusta á jólalögin. Eiginlega byrjuðum við aaaðeins of snemma að hlusta á þau, í lok október... hahaha en það var meira bara svona eitt og eitt jólalag. Nú er kominn tími á að hlusta á þau alla daga, vííj :D Það er því miður enginn snjór en ég vona innilega að hann fari að koma aftur!

Það er svo skrítið að hugsa út í það að næstum allir vinir mínir eru í jólaprófum, mér líður eins og ég sé að missa af þeim... Frekar næs að þurfa allavega ekki að hugsa út í þau en ég vona að öllum muni ganga rosa vel <3
Þetta verður líka fyrsta afmælið mitt í langan tíma sem ég þarf ekki að vera að læra!! Það er mjög góð tilfining, en það verður líka kannski smá skrítið að vera ekki heima... Jæja við sjáum til! Bara 6 dagar þangað til :D

Í dag fórum við Heidi í svaka langan göngutúr um hverfið, við löbbuðum meðfram vatni og enduðum síðan í mjög krúttlegu sænsku úthverfi. En svo föttuðum við að við værum villtar og vissum ekkert hvernig við áttum að fara til baka.... Við spurðum fólk til vegar og hvort við værum langt frá Skärholmen, sem er hverfið sem við búum í, og maðurinn bara uuuu já frekar langt frá, síðan tjekkaði hann á google maps og það voru aðeins 8 mínótur í bíl og þá sagði hann að það væri ekkert mál að skutla okkur, hann væri hvort eð er að fara í svipaða átt. Mamma kom strax í hugann minn vegna þess að hún hefur alltaf varað mig við einhverju svona, en það eru í alvörunni til gott og heiðarlegt fólk í heiminum líka! Allavega þá er sænskt fólk alveg yndislegt, að minnsta kosti þeir sem ég hef komist í kynni við! En við komumst sem sagt heilar og útiteknar heim eftir hressandi göngutúr!

Ég hef náð að hvíla mig frekar vel í dag og ætla snemma að sofa, held að þessi vika verður frábær! Gott að vera úthvíld fyrir allar sviðsæfingarnar sem er í vændum! :D

Likes

Comments

Ég fékk óvænt boð á föstudaginn um að koma í dansprufu fyrir Phantom of The Opera sem er söngleikur sýndur í Gautaborgar Óperunni í september 2017. Ég sendi inn umsókn fyrr í vikunni en ég vissi að deadline-ið fyrir allar umsóknir var runninn út þannig ég var ekki að búast við að fá prufu. Áður en ég veit af þá fékk ég boð um að koma og ég var byrjuð að leita af lestarmiðum og næturgistingu á hóteli. Ég fékk smá panikk vegna þess að ég vil alltaf hafa allt súper skipulagt með fyrirvara en þarna hafði ég nokkra klukkutima til að ákveða mig og redda öllu. Þetta hafðist að lokum (með smá hjálp mömmu að finna hótel hehe) en síðan daginn eftir, laugardag, fór ég á æfingu og svo beint á lestarstöðina.
Í lestinni var eldri maður sem byrjaði að spjalla og spyrja hvaðan ég væri og var síðan alveg hissa þegar ég sagði honum að ég kæmi frá Íslandi. Ég hafði verið að tala við vinkonu mína á skype og hann hélt að ég væri frá Eistlandi hahaha. Hann sagði mér að hann hafi tekið hringinn í kringum Ísland fyrr á árinu og fannst þetta alveg yndislegt land. Síðan spurði hann hvort ég hefði gistingu því annars hefði hann getað reddað mér gistingu hjá fyrrverandi konu hans. Hann bauð mér síðan sólgleraugu sem hann fann á leiðinni kringum landið á einhverjum vegi. Svo sýndi hann mér helling af myndum sem hann hafði tekið á Íslandi. Mjög krúttlegur og yndæll maður.

Ég kom svo á hótelið um klukkan 10 en það var tveggja klukkutíma seinkunn á lestinni vegna tæknilegra vandamála á miðri leið. En að lokum komst ég upp í rúm að sofa. Ég hef ekki sofið svona fast og vel síðan ég var heima! Þetta rúm var súper stórt og notalegt, síðan var alveg svartamyrkur í herberginu sem gerði þetta svo huggulegt!

Daginn eftir (í dag sem sagt) vaknaði ég, borðaði morgunmat, gerði mig til og hélt af stað í Gautaborgar Óperuna. Þar hitaði ég upp en vissi ekkert við hverju ég átti að búast við í þessari prufu. Við byrjuðum á að læra svaka Jazz rútínu. Ég hef aldrei lært jazz áður þannig þetta var alveg nýtt fyrir mér. Ég gerði mitt besta, fór alveg út fyrir þægindarammann minn og ýkti allt. Síðan tók við smá ballet partur sem mér gekk mjög vel í, enda algjörlega inn í minum þægindaramma. Í heildina fannst mér ganga vel en ég var samt ekki alveg viss hvort ég myndi komast áfram í seinni hluta prufunnar eða ekki. Það voru nefnilega mjög góðir dansarar þarna líka sem voru með svaka attitude í jazzinum. Ég var líka með þeim yngri sem var þarna. EN síðan var smá pása og að lokum fengum við niðurstöðurnar. Ég komst áfram og í seinni hlutanum lærðum við klassískt pas de deux. Ég var sett með mjög góðum partner sem kemur frá Noregi og er að læra í KHiO sem er mjög góður dansháskóli. Okkur gekk mjög vel og ég skemmti mér mjög mikið í þessum prufum og lærði alveg heilan helling. Ég fæ að vita niðurstöðurnar eftir viku. Sama hvort ég fái þessa vinnu eða ekki þá var þetta mjög góð reynsla sem ég hefði ekki viljað missa af!

Það er svoleiðis í dansheiminum að maður þarf að fara í margar prufur áður en maður fær já. Þetta var önnur prufan sem ég hef farið í og ég veit að þær munu verða miklu fleiri á lífsleiðinni!

Núna er ég á leiðinni aftur heim til Stokkhólms þannig þetta var bara stutt stopp í þetta sinn!

Likes

Comments

Ég hef verið alveg frekar upptekin síðustu tvær vikur. Aðallega í því að taka upp audition video. Það eru nefnilega margir dansflokkar sem vilja fá sent inn video áður en þeir bjóða manni að koma í prufu. Nathalie ballett kennarinn minn var svo yndisleg að hjálpa mér með videoið og Daniel tæknimaður skólans lánaði okkur myndavél og þrífót til að taka upp og síðan klippti hann videoið saman. Er ekkert smá heppin að hafa fengið svona mikla hjálp frá þeim, kann allavega mjög mikið að meta það!
Síðan er ég búin að vera að vinna í CV-inu mínu og allskonar hlutum sem þurfa að vera komnir í lag fyrir auditions.

Í síðustu viku fórum við síðan á sýningu hjá Batsheva dansflokknum, sem er einn frægasti dansflokkur í heimi. Ég hef bara eitt orð: VÁ!!!!! Það var magnað að sjá þau live. Allir dansarar flokksins voru fáránlega flottir. Eftir sýninguna var síðan "eftirspjall" við stjórnanda flokksins Ohad Naharin. Það var líka ekkert smá gaman að sjá hann. Hann er eitt af þessum nöfnum í dansheiminum sem allir dansarar verða að þekkja.
Daginn eftir fórum við síðan í workshop með eitt af dönsurum flokksins. Okei sko.... Það var geðveikt. Fórum í Gaga improvisation tíma. Þar varð ég fyrir svooo miklum innblæstri, get eiginlega ekki komið því í nógu góð orð.

Annars er ekkert það mikið af frétta af mér, jólasýningin nálgast óðfluga og við erum búin að vera á fullu að æfa fyrir hana. Smá stress vegna þess að það er ekkert grín að dansa Svanavatnið... Verð að halda áfram að vera dugleg að synda til að halda uppi þolinu hahaha! Síðan munum við sýna Pas De Deux verkið Sul Tempo sem við sýndum í Gautaborg í október nema að núna vantar svo mikið af fólki vegna þess að allir "non european" úr international bekknum (mínum bekk) voru sendir heim til að leysa VISA vandamálið. Þannig að núna er búið að setja nýtt fólk í verkið til að fylla upp í götin og þá þarf að hreinsa allan dansinn aftur. En það er alltilagi! Allir verða bara að vera super fókuseraðir svo þetta gangi upp :D
Um daginn prentaði ég út helling af myndum og hengdi upp á vegginn minn sem gerir herbergið smá eins og herbergið mitt heima á Íslandi! Fæ samt stundum frekar mikla heimþrá með því að skoða myndirnar...

Er samt ennþá í svo miklu sjokki hvað tíminn er fljótur að líða!! Nóvember er alveg að klárast og svo kemur bara Desember, þá á ég líka afmæli, og jólin og jólafrí ahhh!! Er svo spennt, við fjölskyldan erum að fara til Flórída um jólin þannig það verða sólrík jól í ár hjá mér!


Likes

Comments

Þetta er búið að vera mjög tvískiptur dagur, bæði á vondan og góðan hátt...
Er ekki alltaf best að byrja á því slæma? Jæja okei fyrir það fyrsta eins og líklega allir vita þá er Trump forseti bandaríkjanna, allir hér í Svíþjóð eru miklu sjokki...
Svo var verið að tilkynna okkur að international nemendurnir frá Japan og Ástralíu verða að yfirgefa landið innan tveggja daga vegna VISA vandamála... Sem er ööömurlegt. Ég get ekki ímyndað mér að þurfa að yfirgefa það sem er orðið sitt annað heimili og alla vini sína hér. En þau fara aftur heim til sín og þurfa að afgreiða þetta VÍSA vandamál þar, síðan koma þau aftur ef að þetta tekur ekki marga marga mánuði. Það eru allir í miklu sjokki vegna þess að þau fengu að vita þetta með svosvosvo litlum fyrirvara. Flugmiðinn þeirra sem eru að fara til Japans kostaði um 280þúsund isl krónur!!!!! Fáránlega mikið 😔 Æji þetta er bara rosalega leiðinlegt og sorglegt. Í bili verðum við þá fjögur eftir af ellefu manna hópi. 😔 En Shardae vinkona mín/herbergisfélagi þarf að fara til Ítalíu og leysa þetta VÍSA mál þar vegna þess að hun er með landvistarleyfi þar þannig hún kemur alveg pottþétt aftur held ég.

Það snjóaði sjúklega mikið í allan dag og það var byrjað að vera ófært þannig að kl 3 sagði skólastjórinn að allir áttu að fara heim og canceleraði öllum tímunum sem áttu að vera um kvöldið...
Við krakkarnir fóru heim og gerðum snjókalla og fórum í svaka snjóstríð. Mér leið eins og 10 ára barni að sjá snjó í fyrsta skipti í langan tíma. Hahaha, það var allavega það góða við þennan dag. Og svo átti vinkona mín Julianne afmæli þannig við keyptum kökur fyrir hana og fórum út að borða sem var mjög næs!

  • 247 Readers

Likes

Comments

Nú sit ég á Joe and the juice á Keflavíkurflugvelli og er á leiðinni heim til Svíþjóðar. Ég kom til Íslands síðastliðinn laugardag og var heima í viku.
Þessi vika er búin að vera dásamleg í alla staði. Ég náði að hitta alla en það reyndi verulega á skipulagið mitt! Ég skrifaði allt niður vegna þess að ég vissi að annars myndi ég gleyma því!

Laugardagur = Ferðadagur. Ég lagði af stað frá dormitoríinu um hádegi. Rétt áður en ég fór þá ákvað ég að þrýfa aðeins, það var svo mikið af óhreinum diskum og riki að ég stóðst ekki mátan. Ég vona bara að íbúðin verður hrein þegar ég kem til baka. Það reynir á herbergisfélagann minn núna! Neeei ég segi svona… En allavega þá gekk ferðin heim rosa vel. Mamma, pabbi, Kæja og Lotta tóku á móti mér á flugvellinum. Það var ekkert smá gott að sjá þau. Ég sver að systur mínar erum búnar að stækka heilan helling síðan ég sá þær seinast. Það er eiginlega bara óhuggulegt! Ég vil ekki að þær stækki svona fljótt!!!!
Mamma eldaði uppáhaldsmatinn minn um kvöldið. LASANGA!! Vá ég hef ekki fengið svona góðan mat í 3 mánuði.

Um kvöldið var ég svo heppin að sjá bestu vinkonu mína hana Lív. Það vildi svo heppilega til að við náðum nokkrum klukkutímum saman á landinu. Hún fór síðan heim til sín til Hollands á sunnudagsmorgun. Ég hefði nú verið til í að eyða meiri tíma með henni en ég er samt mjög þakklát að hafa fengið að sjá hana.

Sunnudagur: Ég fékk deliciouuuuus morgunmat. Við fjölskyldan fórum síðan í boð heim til ömmu og afa vegna þess að amma var að gefa út bók sem heitir Svartalogn. Ég er ekkert smá stolt af ömmu og er mjög spennt að lesa nýju bókina hennar! Það var gott að hitta alla fjölskylduna aftur. Við mamma og Kæja fórum síðan í bíó og um kvöldið hitti ég bestu vinkonur mínar, Þórdísi, Bjargey, Helgu og Dagný. Þórdís var mesta dúlla í heimi og bakaði köku. Það var svoo gott að sjá þær.

Mánudagur: Ég tók ballettíma upp í Listdansskóla (gamla skólanum mínum) og hitti síðan Sesselju vinkonu mína sem var ný komin úr kjálkaaðgerð greyið! Síðan fór ég með systur mínar til tannlæknis í skoðun. Þetta var mjög rólegur og næs dagur. Um kvöldið var ég heima með fjölskyldunni að hafa það kósy. 🙂

Þriðjudagur: Ég hitti Auði og við fórum á Lemon í hádegismat. Við löbbuðum fram og til baka á laugarveginum og enduðum síðan á lemon eins og svo oft áður! Um kvöldið fórum við Ólöf, Alma, Klara og Fanney í Reykjavík escape. Guð minn góður, þetta var svo erfitt og við vorum svo clueless á tímabili að það hálfa væri nóg, hahaha. Við erum allar með svo mikið keppnisskap að það var mjög erfitt að tapa. En ég meina shit happens, við ætlum að rústa þessu næst! ;);) Síðan fórum við heim til Fanneyjar og gerðum eðlu, mmmmmm það var súper næs. Það er svo tíbýst að þegar ég flutti til Svíþjóðar þá akkurat flutti Fanney til Íslands frá Svíþjóð. Við höfum aldrei búið allar á sama landinu frá því í 9unda bekk, alveg merkilegt. En það góða við þennan vinahóp er að það skiptir ekki máli hvort við hittumst í gær eða fyrir 4 mánuðum, við erum alltaf eins. Mér þykir svo fáránlega vænt um þennan vinahóp að ég get varla lýst því.

Miðvikudagur: Ég fór að skoða nýja Plié húsnæið (ég var balletkennari þar áður en ég flutti út) VÁVÁVÁ, ekkert smá flott og stórt. Það var yndislegt að hitta Elvu og Eydísi og spjalla. Ég tók líka Hot barre tíma hjá Eydísi sem var alveg frábært, og erfitt…. hahaha. Svo fór ég aftur með Karlottu til tannlæknis, í þetta skipti þurfti að laga glerungsskemmd hjá henni. Greyið fékk fjórar deyfingarsprautur, það var samt smá fyndið… En þarna ákvað ég að ég gæti ekki orðið tannlæknir eða skurðlæknir. Ég fæ svo mikinn hroll að horfa á einhvern sprauta fólk og gera allt þetta. ughhh. Eftirmiðdaginn hitti ég Lárus og Þórdísi og við fengum okkur kaffibolla. Ég er ekki búin að sjá Lalla síðan í júní þannig það var æðislegt að sjá hann. Um kvöldið fórum við pabbi, Kæja, Lotta og Davíð bróðir á landsleikinn (handboltaleik). Ég hélt samt fyrst að ég væri að fara á fótboltaleik því pabbi talaði alltaf um landsleik og af einhverri ástæðu þá hélt ég að þetta væri fótboltaleikur og spurði pabba, því það var greeenjandi rigning, hvort maður yrði nokkuð svaka blautur á að sitja í stúkunni. Hann hló bara af mér. Ég skemmti mér svaka vel á leiknum. Þetta var súper spennandi leikur og aðsjálfsögðu vann Ísland! wohoooo!
Fimmtudagur: Jæja enn og aftur fór ég til tannlæknis. Ég held að ég hafi heimsótt hann oftast af öllum, án gríns haha! En í þetta skipti fór ég til hans. Ég var guðslifandi fegin þegar hann sagði mér að endajaxlarnir uppi voru ekki að fara að koma. Jii minn eini, það er hræðilegt að taka endajaxlana út. En það var allt í besta lagi sem betur fer! Um hádegið fór ég á Gló með Karitas frænku minni sem var yndislegt. Eftirmiðdaginn fór ég og hitti Auði og Söru. Það var mjög gott að hitta þær. Síðan fór ég í ballettíma með Auði í JSB hjá Maríu Gíslad, ég var allaf hjá henni í einkatímum í ballet á tímabili. Það var mjög gott að sjá Maríu aftur og taka tíma hjá henni! Um kvöldið buðu mamma og pabbi mér, Kæju, Lottu og Helgu sys útað borða á Grillmarkaðinn. Það var ekkert smáá góður matur og flottur staður! Síðan fórum við á ValdÍS og svo heim í kósý.
Föstudagur: Ég fór upp í MH og ætlaði að ná í útskriftarmyndina af árgangnum. Ég var búin að steingleyma henni og fattaði bara um daginn að ég hafi pantað hana í vor. Vandamálið var að það var ekki hægt að borga með korti og heldur enginn hraðbanki þannig ég er ekki enn komin með myndina hahahaha. Bjargey ætlar samt líklega að redda þessu fyrir mig. Það var mjög næs samt að hitta aðeins krakkana í MH. Síðan fór ég til ömmu og afa í kaffibolla og við spjölluðum um hitt og þetta, þar á meðal voru lífsreglurnar hlíddar yfir mér enn einu sinni haha. Það er alltaf gott að taka svona spjall við ömmu og afa. Síðan fór ég í klippingu til Bjargey! Hún er algjör snillingur að klippa hár, er búin að fara í klippingu til hennar síðastliðið ár! Um kvöldið var síðan Halloween party hjá Guðrúnu Söru, það var sjúklega gaman að hitta alla krakkana þar, smá magaluf (útsriftarferðin) reunion!
Laugardagur: Aaalgjör kósý dagur. Ég og Ólöf fórum í rúmlega klukkutíma göngutúr með Skugga um Fossvogsdal. Við gerðum það alltaf reglulega þegar ég bjó heima. Við höfum báðar saknað þess að hittast og fara í kósý göngutúr. Um kvöldið kom afi Pálmi í mat og við borðuðum sjúúklega góðan mat. Það var rosa gott að hitta afa. Síðan fór ég bara að pakka og að vana þá er ég með alltof mikið af dóti með mér. Ég þurfti að setjast á töskuna til að loka henni, ég vona bara að hún springi ekki í flugvélinni haha. Er ekki eitthvað “travel light” námskeið sem hægt er að fara á???
Um kvöldið komu Ólöf, Klara og Fanney til að kveðja mig. Klara er akkurat að flytja í sína eigin íbúð í dag, hefði svoo mikið vilja hjálpa henni að flytja en var bara akkurat að fara í dag :((((((
Sunnudagur: Við fjölskyldan fórum í svaka flottan brunch til Auju frænku og Óskars frænda. Það var yndislegt að sjá þau. ❤ Síðan fórum við í búð og keyptum mikiðmikið af vítamínum fyrir mig, lýsi og amino. Svo skutlaði pabbi mér upp á flugvöll og núna er ég bara í flugvéllinni á leiðinni heim til Svíþjóðar!

Þetta var frábær ferð í alla staði. Að koma svona aftur til baka gerir mig svo 10000x þakklátari fyrir allt sem ég á. Fjölskyldu mína og vini. Ég í alvörunni á ekki til nógu góð orð fyrir það hvað mér þykir vænt um alla. Það er engan vegin sjálfsagt að eiga svona gott fólk í kringum sig.

Svo skrítið samt að koma í heimsókn heim til sín. Mér líður smá eins og Hannah Montana, lifi eiginlega tveimur lífum. Hljómar kannski asnalega en ég var nú að horfa á Hannah Montana the movie um daginn þannig það skýrir þessa pælingu kannski. Haha 😀

Likes

Comments

Þessi vika er búin að vera mun rólegri en vikurnar þar á undan. Natalie balletkennarinn minn fór til Sviss þannig að ég er búin að vera með rússneskan kennara alla vikuna. Það er búið að vera mjög áhugavert og gaman að breyta til og fá nýjar og öðruvísi leiðréttingar. Ég verð nú samt að segja að ég sakni Natalie...
Við fórum síðan bara í einn nútímadans tíma í vikunni vegna þess að Sigge, nútímadans kennarinn minn, var að sýna í óperunni og gat því ekki komið. Cilla var með tímann á miðvikudaginn, en við erum alltaf hjá henni á þeim dögum. Í þeim tíma steig ég algjörlega út fyrir þægindarammann minn. Þeir sem þekkja mig vel vita að ég er mjög opin manneskja og ég geri stundum frekar skrítna hluti en þegar ég kem inn í ballet stúdíóið þá hverfur soldið grallara hliðin af mér. EN tíminn á miðvikudaginn var aðeins öðruvísi og blandaður, sem sagt dans og smá "leiklist" líka. Við lærðum sem sagt kóreógrafíu og inn á milli áttum við að spinna og í endan "dóum" við. Ég kom sjálfri mér mjög á óvart, ég náði þvílíkt að lifa mig inn í þetta og í smá stund leið mér eins og ég væri bara ein inn í herbergi. Sem er frábært!! Ég hef í raun aldrei spreytt mig eitthvað mikið á þessari hlið en það er gaman að vita að ég geti gert þetta.

Núna er ég komin í vetrafrí og fæ alveg heila viku! Á morgun flýg ég heim til Íslands og ég get varla lýst því hvað ég er spennt að sjá fjölskylduna mína og vini!!! Það verður yndislegt að koma heim ❤️🇮🇸

  • 104 Readers

Likes

Comments