Header

Hæ hó!

Það er búið að vera mjög mikið að gera hjá mér seinustu vikur þannig ég hef ekki verið dugleg að setjast niður til að blogga. En núna seinustu tvær vikurnar fyrir jólafrí eru svona öðruvísi stundatöflur, svo eins og þessa vikuna þá klára ég skólann frekar snemma, þá er ég að tala um c. kl 17. Á morgun er jólasýningin okkar en í ár verður hún frekar lítil því þannig eru alltaf jólasýningar hjá fyrsta ári. Við verðum bara í einu stúdíóinu en það er samt búið að setja tjöld og ljós þannig að okkur líður eins og við séum á sviðinu. Ég skil reyndar ekki af hverju við erum ekki bara á sviðinu en nújæja. Á þessari sýningu sýnum við brot úr öllum tímum og það sem við höfum verið að læra þessa önn. Við erum með ballettverk, nútímaverk, hip hop dans, steppdans og jazzdans. Herbergisfélagi minn ætlar að koma og taka þetta upp þannig ég mun hafa eitthvað vídeo.

Við unnum að þessum verkum núna seinustu tímana okkar og svo þessa vikuna er Mandy, aðalkennarinn okkar, búin að hreinsa allt og bæta. Ég dýrka Mandy alltaf meira og meira, ég elska hvað hún er ábyrgðarfull og góður kennari. Hún er svona manneskja sem maður getur alltaf talað við og hún er með allt á hreinu og er bæði ströng og líka hress og skemmtileg. Hún sem sagt fer yfir alla dansana úr hinum áföngunum og breytir ef það þarf að breyta einhverju. Hún er mjög ströng með það hverjir eru fremst og svoleiðis og það er rosa pressa að standa sig vel þegar maður dansar fyrir hana. Hún færir fólk aftar eða framar ef henni líkar ekki við eitthvað eða vill hafa eitthvað öðruvísi og svo segir hún alltaf að það sé ekki endanlegt þannig maður þarf alltaf að leggja sig 100% fram og hafa mikið performance. Á morgun eru sem sagt tvær sýningar og svo eigum við bara eftir æfingar fyrir verkin hjá öðru ári. Ég var eitthvað búin að segja frá því í seinasta bloggi en ég er sem sagt að dansa í 3 verkum hjá nemum á öðru ári. Sýningin þeirra verður næsta föstudag en núna erum við bara á fullu að hreinsa allt og spacea og setja ljós og allt svoleiðis. Næsta vika verður svo bara rennsli og tækniæfingar og svo förum við í nokkra svona upphitunartíma hjá öðru ári þannig að þau munu leiða tímana.

Kennarinn sem leiðir þetta ferli er ballettkennarinn minn og kóreugrafíukennari minn. Hún setur mjög miklar kröfur þannig það er eins gott að standa sig vel! Við á fyrsta ári áttum að semja dúetta og svo vorum við prófuð úr því. Þá er tekið okkur upp og svo fáum við feed back og svo einkunn í lok árs. Dúettinn sem ég gerði með annarri stelpu var fínn, ég hefði viljað nýtt meiri tíma í hann, við byrjuðum bara á honum 10 dögum fyrir prófið svo það var dálítið stress. En okkur tókst það og við enduðum með 3 mín dúett. Það var mjög krefjandi að semja dúett með annarri manneskju en ég er mjög þrjósk manneskja og ég veit hvað ég vil þannig ég þarf að læra að hlusta líka á annarra manna skoðanir. Stelpan sem ég var með var samt ekki með miklar skoðanir þannig að ég endaði eiginlega bara á að fá að ráða flestu sjálf sem mér fannst bara frekar næs hehe.
Fyrir tveimur vikum þá uppgötvuðum við að við áttum að skila stórri ritgerð í Professional Studies 1. des og var það heldur betur stress. Ég hafði misskilið og hélt að það væri valfrjálst og aðrir héldu að þetta væri í vor. En svo bara viku fyrir skil nefndi þetta einhver og þá vissi enginn af þessu. Ritgerðin átti sem sagt að vera um eitthvað company í performing arts geiranum. Ég átti gamla ritgerð um Ara Matthíasson og Þjóðleikhúsið þannig ég svindlaði smá og nýtti hana bara, þýddi ritgerðina og breytti og gerði hana bara um leikhúsið sjálft og þannig tókst mér þetta á þessum stutta tíma. Veit ekki hvað ég hefði annars gert.

Það er orðið rosa kalt hérna, miklu kaldara en ég bjóst við að myndi verða! Núna labba ég í skólann með trefil og vettlinga en á morgnana og kvöldin er mjög kalt. Þá er ég að tala um kannski 10 gráður, en ég held að það sé miklu kaldara en ef það væri 10 gráður á Íslandi. Þannig núna er ég því miður ekkert að fara á ströndina eða í sjósund. Seinast þegar ég fór á ströndina var þegar Sigríður var hér í byrjun Nóvember. Það var mjög næs að hafa hana hérna og rosa gaman. Við höfðum 5 daga saman en fyrsta daginn fékk hún reyndar ælupest sem var frekar leiðinlegt en við náðum samt að nýta alla hina dagana mjög vel. Fimmta daginn átti ég svo að vera í skólanum en það féllu niður tveir tímar og svo var ég í gati þannig ég gat eytt næstum öllum deginum með henni áður en hún fór heim. Svo fæ ég allavega eina heimsókn í vetrarfríinu mínu í febrúar frá Hrefnu, bestu vinkonu minni, og ég er rosa spennt.

Ég er búin að kynnast íslenskri fjölskyldu sem flutti hérna til Sitges í haust. Eyrún er sem sagt að passa fyrir þau en ég fór með henni í eitt skipti og hitti fjölskylduna. Þau eru rosa næs en mamman er að læra kvikmyndafræði hérna í bænum og svo er maðurinn hennar með og tvö börnin þeirra. Það er mjög þæginlegt að vita af íslenskri fjölskyldu hérna. Eitt sinn var ég og Sigríður að labba niðrí bæ og þá heyrum við íslensku og sjáum þá fjölskylduna, þá var systir Þórunnar (mamman) í heimsókn en hún og Sigríður tóku svo rútuna saman á flugvöllinn til að fara til Íslands. Þórunn þekkir svo annað íslenskt par sem býr í bæ hérna rétt hjá sem var að eignast barn í nóvember og er þegar með strák, þannig þau voru líka að leita að pössun.

Annars er önnin bara búin að vera mjög skemmtileg og mér líst rosa vel á þetta allt saman. Auðvitað eru sumir dagar erfiðari en aðrir en það er bara venjulegt. Bekkurinn minn er líka frábær og við náum mjög vel saman. Margir ólíkir karakterar og dansarar og gaman hvað við myndum góðan hóp.

Núna hins vegar get ég ekki beðið eftir að koma heim, hitta allt fólkið mitt og sofa í mínu eigin rúmi. Ég byrjaði fyrst að fá smá heimþrá þegar við vorum í söngtíma og við vorum að syngja jólalag um að opna dyrnar fyrir fjölskyldunni á aðfangadag, við áttum að ímynda okkur að við værum að gera það sem við vorum að syngja um og þá fór ég bara að hugsa um hvað ég gæti ekki beðið eftir að hitta alla aftur. Núna eru bara 10 dagar þangað til! Ég verð svo heima í akkurat 3 vikur og ætla að nýta tímann vel!

Blog using your mobile phone - One of the best blogging apps on the market - Click here

Likes

Comments

Hæhæ!

Ég ætlaði að vera svo rosalega dugleg að blogga reglulega en ég er allavega að blogga núna loksins! Núna er ég sem sagt komin í svona vetrafrí í skólanum sem er í heila viku eða 9 daga með helgardögunum. Þetta kallast Reading Week enda fengum við slatta af verkefnum sem við þurfum að gera í fríinu. Ég þarf að gera hópkynningu um danshöfund og semja verk sem er í hans stíl, pikka upp sóló úr hnotubrjótnum, gera matardagbók og skrifa ritgerð um hana, semja steppdans, finna 20 danshöfunda og vita svolítið um hvern og einn, lesa handrit fyrir leiklist og svo eigum við einnig að læra æfingar utan af fyrir prófin okkar. Þar sem að frænka mín og besta vinkona, Sigríður, er að koma til mín á fimmtudaginn ætlaði ég að reyna að klára öll verkefni sem fyrst og nýta daginn í dag vel en það gerði ég svo aldeilis ekki.. Ég bara naut þess að sofa út og fór svo á ströndina og lá þar í góðan tíma. En ætli maður verið ekki stundum bara að leyfa sér að slaka á án þess að fá samviskubit. Á morgun er ég hins vegar búin að lofa mér að vera dugleg! Á mánudaginn eru svo tvær æfingar fyrir verk sem ég er í hjá nemum á öðru ári. Ég er sem sagt að dansa í 3 verkum hjá öðru ári og eru því 3 aukaæfingar á viku. Ég var svo heppin að fá ekki aukaæfingu á laugardögum þannig ég er ennþá alltaf í fríi um helgar sem er mega næs. Í staðinn er ég reyndar stundum með mjög langa daga eins og á mánudögum en þá er ég frá 9 um morguninn til 9 um kvöldið. Vikan byrjar því alltaf með krafti og svo eru þriðjudagar bara stuttir, til kl 16 en þá er ég í erfiðustu líkamlegu tímunum. Þá finnst mér best að fara eftir skóla á þriðjudögum beint niður á strönd og synda aðeins í sjónum. Svo er ég líka búin að kaupa mér svo dýnu til að fljóta á og það er algjör draumur. Ég held ég sé búin að finna mér annað áhugamál en mér finnst rosa gaman að kafa! Ég elska að kafa í sjónum með sundgleraugun mín og skoða bara sjóinn og það sem leynist í honum. Ég er búin að sjá alls konar flotta fiska og einnig búin að týna margar mjög flottar skeljar. Á miðvikudögum er ég svo alltaf í 4klt pásu í skólanum og þá nýti ég oft tímann og fer á ströndina aðeins að slaka á. Núna eftir Reading Week reyndar þá breytist það þannig að ég verð ekki lengur með þessar pásur, en það á nú örugglega að fara að kólna þannig það er svo sem allt í lagi.

Ég ætla að segja ykkur aðeins frá verkunum sem ég er í. Í einu verkinu erum við 5 að dansa og er það svona nútímadans með balletívafi, mér líst mjög vel á það og stelpan sem er að semja verkið er mjög næs. Í öðru verki erum við líka 5 en þá erum við að vinna með hugmynd um rætur og vöxt í gegnum jarðbergið, erfitt að útskýra en við munum notast við efni sem við dönsum í gegnum og endar svo sem pils. Seinasta verkið er svo alveg með 12 dansara og þar er stelpa að semja verk sem fjallar um mannfólkið og þegar við sameinumst ef að eitthvað gerist, eins og hryðjuverk. Hún er með svona full dramatískt verk fyrir minn smekk en það er bara lærdómsríkt að prufa eitthvað nýtt. Við erum nokkrir dansarar úr A hópnum og svo eru nokkrir úr B líka. Á þessum æfingum hef ég tekið eftir því hvað nokkrar stelpur kunna ekki að bera virðingu fyrir öðrum. Ég var búin að heyra svolítið frá vinkonu minni, Sönnu, um þetta að þær setjast stundum bara niður í tímum ef þær eru þreyttar og sýna kennurum enga virðingu. Þær tala rosa mikið þegar kennarinn talar og margir svona hlutir sem ég hélt að fólk á þessum aldri væri búið að komast yfir. Ef ég væri með þessum stelpum í hóp þá væri ég örugglega að verða brjáluð á þeim haha. Það fyndna er líka að nútímadanskennarinn okkar er ekkert að fela það hvað hún er orðin þreytt á þeim. Hún hefur nokkrum sinnum talað um það hvað við séum uppáhalds hópurinn hennar og hún sé svo ánægð með hvern einasta nemanda í hópnum annað en í B hópnum. Þetta er einn af uppáhalds kennurum mínum. Hún er rosa flottur dansari og það sést langar leiðir hvað hún er sterkur og heilbrigður dansari. Hún er líka með mjög svipaðan dansstíl og ég fíla og ég elska tímana hennar! Hún er að kenna okkur Horton tækni ásamt sinni eigin tækni og hún er líka að láta okkur vinna með rútínu sem er svona flowy rútína uppi og niðri á gólfinu. Hún er frekar ströng á góðan hátt og leiðréttir rosa mikið og hrósar einnig mikið. Það finnst mér mjög stór kostur við kennara.

Við erum líka með einn annan nútímadanskennara en hún heitir Eva Martz og er bara með okkur einu sinni í viku. Hin heitir Sara og er með okkur tvisvar í viku. Eva á dansflokk sem Sara dansar í og er mjög flottur! Mæli með að skoða hann á youtube en hann heitir eftir Evu. Ég lýt einnig mjög mikið upp til Evu en hún er rosa flottur dansari. Hún er með mjög sérstakar hreyfingar og eru tímarnir hennar mjög krefjandi en skemmtilegir, sérstaklega núna þegar maður er að venjast tækninni hennar.
Ég er einnig með tvo jazz kennara. Ein heitir Mandy og hún er einnig svona „umsjónakennarinn“ okkar. Mér lýst líka mjög vel á hana og hún er mjög góður kennari. Hún er bæði ströng og skemmtileg. Hinn jazz kennarinn minn heitir Greg en hann kennir mér líka Healthy Dancer áfangann. Hann er líka mjög fínn. Ég hitti þau oft á leiðinni í skólann en þau eru mjög oft saman í bakarínu sem er rétt hjá mér haha. Ég er líka með tvo ballettkennara, einn heitir Vincent og eru tímarnir hans mjög fínir, hann gerir frekar basic æfingar og maður getur einbeitt sér mjög mikið bara að sjálfum sér í tímunum hans. Hinn ballettkennari minn heitir Jennifer en hún kennir mér líka Kóreógrafíu. Hún er kona skólastjórans og er frá Ameríku. Hún er mjög indæl og hefur mikla reynslu en balletttímarnir hennar eru þeir erfiðustu sem ég hef farið í. Hún gerir mjög krefjandi æfingar og lætur okkur mjög oft endurtaka æfingar og gera allt aftur á relevé eða án þess að halda í stöngina. Hún er mjög svona klassísk þannig við megum helst ekki klóra okkur eða laga okkur á milli æfinga og við eigum alltaf að standa alveg beinar og vera alltaf tilbúnar. Tímarnir hennar eru á erfiðustu tímunum en það er fyrsti tíminn á mánudögum og einnig seinasti tíminn á föstudögum. Föstudagar eru sérstaklega erfiðir því þá er maður alveg búin á því eftir vikuna og hún lætur mann alveg nota alla orku sem er eftir í manni. Seinasta föstudag var orkan mín meira en búin og endaði það þannig að ég fór að gráta í seinustu hoppæfingunni! Við vorum búin að gera Grand Allegro, sem er svona stærsta hoppið, sex sinnum og þá var ég að detta niður dauð. Þá segir hún að við skulum koma í miðjuna og gera seinustu æfinguna. Þá var ég að búast við bara svona kæla okkur niður en neinei þá áttum við aldeilis að gera 64 ítölsk hopp ekki einu sinni, heldur tvisvar sinnum. Ítölsk hopp eru semsagt frekar erfið hopp sem krefjast mikils krafts og orku en ég hef aldrei gert meira en 16 svoleiðis hopp í einu. Þegar hún sagði þetta þá fóru tárin að leka en ég hef bara aldrei verið jafn búin á því. Þannig það mætti segja að ég hafi grátið úr þreytu. Hún hefur líka svo mikla trú á okkur og maður vill ekki bregðast henni. Svo fer tónlistin í gang og ég byrja að hoppa en fæturnir bara gefa sig og ég kemst ekki upp. En ég er sem betur fer ekki eina því það gat enginn af okkur þessi 64 hopp x2. Þegar æfingin var svo alveg að klárast gaf ég allt í og gerði góð 8 ítölsk hopp og kláraði með stæl en um leið og æfingin var búin og þar af leiðandi tíminn þá sast ég niður og leyfði tárunum að streyma hahaha. Ég og Kata sátum svo bara dágóða stund hlæjandi og grátandi til skiptis. Ég veit samt að ég á eftir að verða svo mikið sterkari með þessu áframhaldi svoþetta er þess virði. Núna eftir reading week munum við svo byrja að vera á táskóm í tímunum hennar, ég sem hélt ég þyrfti aldrei að nota þá aftur.. En það er bara gott fyrir mig og styrkjandi!

Ég er líka með tvo kennara í Commercial en þeir eru með mjög ólíka tíma. Einn er algjör díva og er með svona feminim tíma þar sem ég fer mjög mikið út fyrir þægindarammann minn. Hann er rosa flottur og mjög hreinskilinn kennari! Ef honum líkar ekki eitthvað þá segir hann það hreint út. Við erum mikið að vinna með facial expression hjá honum og svona grunnatriði eins og bara að labba og vera meðvituð um andlitið á sama tíma. Í lok tímans kennir hann svo okkur alltaf rútínur sem eru mjög hraðar og skemmtilegar. Stundum lætur hann svo fólk fyrir utan koma að horfa eða eitthvað svoleiðis. Hinn kennarinn okkar er hins vegar meira að vinna með basic hip hop frá grunni. Okkur líkar misvel við tímana hans en hann talar rosa mikið og fer mjög hægt og djúpt í hlutina. Fyrsta tímann hjá honum vorum við t.d. bara að bounce-a fyrstu 45 mínúturnar. Ég, sem er mjög óþolinmóð manneskja á alveg stundum auðvelt með að missa einbeitinguna í tímunum hans en ég veit samt að ég hef mjög gott af þessu og við munum læra að kunna að meta þetta. Í gær vorum við í tíma hjá honum og þá lærðum við stutta æfingu þar sem maður þarf að nota plié mikið og vera afslappaður í líkamanum. Ég sem kem úr ballett hef alltaf átt frekar erfitt með það en mér fannst ég samt ganga frekar vel í æfingunni og hélt ég væri bara næstum með þetta. Svo biður hann mig og eina aðra stelpu að koma fremst og sýna æfinguna og ég var rosa stolt af sjálfri mér enda ekki sjálfgefið að ég sjálf sýni eitthvað í hip hop! ..... En svo þegar við kláruðum æfinguna þá sagði hann að svona ætti nákvæmlega ekki að gera þetta! Við sem sagt vorum báðar alltof stífar og vorum ekki með nógu mikið plié og „groove“. Enda gat það ekki verið að ég myndi slá í gegn í hip hop, alla vega ekki strax haha.

Núna seinasta mánudag gerðum við mjög skemmtilegt verkefni í leiklist. Við áttum sem sagt að vera búin að ákveða eitthvað sem við gerum daglega ein heima, eins og t.d. bursta tennur, mála okkur, elda eða eitthvað. Við áttum svo að reyna að koma með umhverfið með okkur og framvæma verkefnið eins og við værum ein heima hjá okkur. Ég ákvað að velja þegar ég kem heim úr skólanum og geng frá skóladótinu og skrifa nótur í stílabókina mína eftir daginn. Svo kom ég með sængurfötin mín, púðann minn, nokkur föt og eitthvað svona dót til að reyna að hafa sem mest úr umhverfinu mínu. Svo átti ég sem sagt að gera það sem ég geri vanalega í 3 mín fyrir framan bekkinn og reyna að ímynda mér að ég sé bara heima hjá mér ein eins og vanalega. Þetta gekk betur en ég bjóst við og ég var bara nokkuð sátt með mig!
Í söng er líka mjög gaman og krefjandi, við erum búin að vera að æfa lög og núna eigum við að ákveða eitt lag, hvaða lag sem er, sem við viljum vinna með og geta sungið almennilega í apríl. Þetta er hugsað fyrir okkur að geta notað til dæmis í prufum en þá er oft beðið mann um að syngja eitthvað. Mér finnst þetta algjör snilld en ég er núna að reyna að finna hvaða lag mig langar að syngja.
Mér finnst bara svo magnað hvað ég er að læra mikið hérna, og allt eitthvað sem ég hef svo mikinn áhuga á og tengist áhugamálinu mínu. Á föstudögum erum við líka í bóklegum tímum sem heita Professional Studies. Þar koma mismunandi kennarar og kenna okkur ýmislegt. T.d. núna erum við að læra um viðskiptaheiminn sem tengist listunum. Sá kennari er mjög reynslumikill en hann hefur unnið með Beyoncé og fleirum þekktum! Ég á reyndar rosa erfitt með að einbeita mér lengi þegar einhver er bara að tala svo ég dett mjög auðveldlega út en það er eitthvað sem ég þarf að bæta, oft finnst mér til dæmis hjálpa að vera að krota á blað á sama tíma eða gera eitthvað annað á meðan svo ég geti hlustað. Maður þarf bara að finna sýna eigin leið, það virka ekki allir eins.

Annars gengur bara allt mjög vel og ég er mjög ánægð hérna. Var akkurat að hugsa um daginn þegar ég var að kafa í sjónum bara hversu hamingjusöm ég væri hérna. Auðvitað koma líka erfiðir dagar og mig langar alveg stundum að vera bara heima í þægindarammanum mínum með fólkið mitt og allt öryggið en það er bara einn og hálfur mánuður í jólafrí! Eitt skiptið sem ég fékk smá heimþrá var þegar það var brotist inn í íbúð hjá vinkonu minni og stolið 3 tölvum og pening. Þá varð ég sjálf mjög paranoid og alltaf þegar ég kom heim þá hugsaði ég um að einhver gæti núna verið inn í íbúðinni minni. Einu sinni var ég meira segja það paranoid að ég kom heim úr búðinni og sá þá svona brot á hurðinni, eins og það hefðu verið rosa átök á hurðinni. Þarna var herbergisfélaginn minn í Ítalíu svo ég var alein heima. Ég hringdi í hana og nokkra aðra og hringdi svo í konuna sem sér um íbúðina. Hún sagði mér að það hefði alltaf verið smá brot á hurðinni og ég ætti bara að labba inn með hana í símanum, ég gerði það og auðvitað var enginn inni. Svo kom hún til mín og fór yfir lásana því ég var svo óörugg og sagði mér að hún væri með 10 íbúðir til leigju seinustu 5 ár og það hefði aldrei verið brotist inn. Við værum með mjög góða lása en hjá vinkonu minni var svalahurðin með mjög lélegan lás. Þetta róaði mig talsvert svo núna sef ég vært á næturna hehe. Svo gerðist það reyndar í gær að vinkona mín sem býr í hinni íbúðinni hringir í mig og þá hefur hún komið heim og séð miða á borðinu þar sem stendur á ensku einhver setning um dauða og svefn. Eftir innbrotið þá var þetta algjört sjokk og hún var bara að fara að bóka flug heim þegar hún talaði svo við herbergisfélagann en þá hafði hann bara gleymt miðanum sínum þar sem hann hafði skrifað niður setningu sem hann var að vinna með í skólanum!

Núna er ég hins vegar að deyja úr spenningi að fá Sigríði í heimsókn og sýna henni um og gera eitthvað rosa skemmtilegt með henni! Svo byrjar skólinn aftur mánudaginn eftir og þá verð ég búin að hvílast vel og safna kröftum til að byrja aftur í skólanum á fullu.

Adios!

Kv. A.G.

Likes

Comments

Heyjooo

Í dag er fyrsti dagurinn minn sem ég hef bara aðeins til að slaka á og þurfa ekki að mæta neitt! Nema í partý í kvöld hehe. Það er ansi margt búið að gerast seinustu vikur og ég var reyndar búin að blogga um það en það eyddist allt þannig að núna er ég að blogga allt uppá nýtt! gamangaman.

Fyrstu dagana hérna á Spáni þá bjó ég í litlu kjallaraíbúðinni minni. Það entist hins vegar ekki lengi þar sem mér leið alls ekki vel þarna enda var þetta meira kjallari heldur en íbúð! Gólfið, loftið og veggirnir var allt svona óklárað og það voru pípur og rör útum allt. Svo fékk ég líka slatta af kóngulóm í heimsókn en þær eru ekki mínar bestu vinkonur :) Þannig að ég fór strax að leita af annarri íbúð sem ég fann svo að lokum og hún var á besta stað, miðbænum í Sitges. Það tekur mig 2mín að labba á ströndina og 20mín að labba í skólann sem er mjög næs. Erfiðast var samt að tilkynna konunni sem átti kjallaríbúðina þetta en hún var búin að vera yndisleg. Fórum með henni og dóttur hennar út að borða fyrsta daginn og mér leist strax mjög vel á þær báðar. En ég er samt alveg ennþá í smá sambandi við hana og hún er meira að segja búin að bjóða mér í mat, þannig það er allt í góðu. Ég finn það líka núna hvað það hefði verið pirrandi að búa ekki í Sitges þar sem það er allt hér í kring og oft svo mikið að gerast hérna. Þá er mjög þæginlegt að geta labbað allt.

Íbúðin mín er mjög fín, ég kom fyrst í hana þannig ég gat valið mér herbergi og ég valdi það sem hafði sér baðherbergi. Núna seinasta þriðjudag flutti svo hinn leigjandinn inn og svo kemur einn meðleigjandi í viðbót þannig við verðum 3. Íbúðin er mjög rúmgóð og þæginleg og einnig höfum við fínan garð! Svo erum við með sér geymslu og sér þvottahús og einnig 2 sturtur þannig það er allt saman mjög þæginlegt. Stelpan sem býr með mér núna er 18 ára og er á fyrsta ári í leiklist. Eins og er lýst mér mjög vel á hana og ég held að okkur eigi eftir að koma alveg ágætlega saman! Á morgun munum við svo funda með konunni sem leigir okkur húsið og fara yfir reglur og hvernig við viljum hafa allt saman. Við ákváðum að funda núna um helgina þar sem mamma stelpunnar fór í gær en okkur fannst best að vera bara við á fundinum en mamman er svolítið spes og hefur sínar skoðanir.. Hún sem sagt bjó í þriðja herberginu fyrst að það var laust og var hún því alltaf hérna heima meðan við vorum í skólanum. Svo kom stelpan alltaf seint heim og því var ég og mamman alltaf bara einar heima. Mamman er sem sagt með ákveðnar reglur sem felst í því að enginn karlkyns má koma í íbúðina hvort sem það er vinur, kærasti, pabbi eða bróðir. Einnig vill mamman helst ekki fá neinn sem er fæddur í meyjumerkinu inn í húsið, en meyjur eiga víst að vera rosa manupulative! Fyrsta spurninginn sem hún spurði mig var líka hvenær ég væri fædd og núna veit ég af hverju það var. Svo var hún líka alltaf að skipa mér að fara út með ruslið eða setja þvottinn út og allskonar. Svo eitt kvöldið sat ég að borða jógúrt og þá kemur hún og lyftir skálinni minni upp til að setja dúk undir hana og gaf mér svo servíettu! Svo settist hún hjá mér og fór að segja mér hvað hún hataði feminista mikið. Henni finnst sem sagt að konur eigi bara að sjá um að eignast börn og fæða þau en mennirnir eigi að vinna og afla peninga. Konur eiga ekki að gerast lögfræðingar eða lögreglumenn því það er bara fyrir karlmenn. Ég reyndi einu sinni að skjóta að ég væri ósammála þessu inn á milli en hún bara leyfði mér ekki að segja neitt! Svo fór hún líka að segja hvað Evrópa væri að deyja út því konurnar væru ekki að hugsa bara um að eiga börn. Svo er líka Ameríka að skemma heiminn því það er víst Ameríku að kenna að áfengi, sígarettur, eiturlyf og þess háttar sé til. Alls konar svona skemmtilegt sem hún sagði sem gerði mig alveg kjaftstopp. Ekki nóg með það heldur var hún alltaf að skipta sér af mér og því sem ég gerði. Hún tók þvottinn minn og raðaði honum betur, og svo var hún að segja að ég væri bara að drepa sjálfa mig fyrst ég væri að elda mér pasta. Þá hélt hún hálftíma ræðu um mataræði og það að hún væri komin inn í líf mitt til að kenna mér á mataræði. Svo talaði hún um pláneturnar og að núna væri Satúrnus yfir mér sem þýddi að ég væri komin í nýja fjölskyldu (sem sagt hennar fjölskyldu) og svo í nóvember á næsta ári ætti ég að eignast barn því þá væri Júpíter yfir mér! Svo var svo frábært hvað hún var alltaf að segja að við værum systur því við værum báðar ljón. Henni fannst við líka hugsa svona alveg eins :) Ennnn mamman fór í gær þannig núna er smá amen og halelúja.

Allavega, mamma og pabbi voru með mér fyrstu vikuna til að ganga frá öllu sem þurfti að gera og svoleiðis. Fórum líka nokkrar ferðir í Ikea og svo þurftum við nú að flytja allt dótið mitt í nýju íbúðina. Þau fóru svo á sunnudagskvöldi og fyrsti skóladagurinn var á mánudegi. Það var samt bara svona útsýnistúr um bæinn fyrir fyrsta ár en við Katrín misstum af því þannig við fórum bara okkar eigin útsýnistúr að reyna að leita af hinum haha. Katrín er sem sagt með mér á fyrsta ári og býr bara tveimur götum frá mér sem er mega næs! Það hefur komið sér einstaklega vel þegar rafmagnið datt út og líka þegar kónguló kom í heimsókn og vinkona Katrínar sem býr með henni kom og tók skrímslið fyrir mig haha. Vinkona hennar heitir Eyrún og er hér í hálft ár í fjarnámi. Svo á öðru ári eru líka tvær íslenskar stelpur, Urður og Marta, en þær ásamt Katrínu voru með mér í Listdansskólanum þannig við þekkjumst allar smá. Svo restina af vikunni voru bara svona kynningar á skólanum og kennurunum og einnig var nokkurs konar hópefli þar sem við kynntust öðrum nemendum. Svo fórum við í svona placement í ballett og steppi en þá er raðað okkur niður í A eða B hópa. Ég lenti í A í ballett og er því í A í öllum fögum nema B í steppi. Það eru svo margir sem eru búnir að læra stepp og svo aðrir sem hafa aldrei lært stepp þannig þess vegna er raðað í sér hópa þar sem er mjög sniðugt. Á föstudeginum fórum við svo í einkaviðtöl við aðalkennarann og vorum að ræða markmið og hún var bara að kynnast okkur og svoleiðis. Svo fórum við í skoðun hjá sjúkraþjálfurunum til að þeir gætu séð meiðsli og líkur á meiðslum og þess háttar.

Seinasta laugardag kom svo Berglind, sem var einu sinni danskennari minn, og kærasti hennar til Sitges en Berglind var í prufum sem voru akkurat haldnar í skólanum mínum. Við fórum á ströndina og lentum svo í miðri skrúðgöngu þar sem fólk sprengdi og var með blys alveg ofaní mannþrönginni! Það var samt mjög áhugavert að sjá þetta og svo var allskonar tónlist og dansatriði með. Þetta var einhver hátíð sem heitir Santa Tecla. Svo voru þau Berglind og Siggi svo hrifin af bænum að þau ákváðu bara að gista í bænum fyrst ég var ein komin í íbúðina og með aukaherbergi en þau voru með hótel í Barcelona. Daginn eftir fór ég svo með þeim til Barce og við hjóluðum um borgina og fórum í einhvern garð þar sem það var hægt að sjá yfir alla Barcelona. Svo um kvöldið var tónlistarhátíð og þá voru íslenskir artistar að spila, m.a. Emmsjé Gauti, Glowie, Reykjavíkurdætur og fleira! Svo kvaddi ég þau og tók lestina heim um kvöldið. Það var svo mega næs að fá smá heimsókn og sérstaklega að ná að sjá svona mikið með þeim.

Svo var fyrsti venjulegi skóladagurinn núna á mánudaginn og þá fórum við í ballett, nútímadans, jazz, healthy dancer (bóklegt og verklegt fag), og leiklist. Þann dag var ég í skólanum frá 9-19.15 og var bókstaflega dauð um kvöldið haha. Fengum reyndar 2klt pásu fyrir leiklist en vanalega eru bara 15mín pásur milli tíma sem er alltof stutt! Þurfum að skipta um föt, skipta um stúdíó, borða og allt þetta á 15 mín auk þess sem kennarar vilja helst fá okkur 10 mín fyrr inní stúdíó! Það eru mjög strangar reglur um hvernig við eigum að vera klædd í tímum en allt þarf að vera svart og það eru engin aukaföt leyfð nema í Commercial, leiklist, söng og bóklegum tímmum en þá helst bara svart. Þetta fer alveg smá í taugarnar á mér en mér fannst ég vera komin yfir þetta stig en ég lifi þetta af haha. Annars líst mér bara mjög vel á skólann og umhverfið og starfsfólkið! Það eru allir mjög hjálplegir og næs. Eini gallinn er sá að vatnið í skólanum sem er hægt að drekka lekur rooosa hægt þannig það tekur 5mín að fylla á brúsann, og svo er líka bara ein sturta og til að komast í hana þarf að fara í gegnum sjúkraþjálfaraherbergið.

Á þriðjudeginum hélt svo skólinn áfram og það var klárlega erfiðasti dagur vikunnar. Ég var með harsperrur í öllum vöðvum líkamans og gjörsamlega búin á því. Þann dag var ég í kóreógrafíu, nútímadans, ballett og jazz og ég hef aldrei verið jafn dauð! Eftir skóla fór ég svo bara beint á ströndina og sofnaði þar og synti aðeins í sjónum sem var geggjað. Miðvikurinn var aðeins þæginlegri en þá byrjaði ég í Body Contitioning sem er svo tími þar sem það er farið yfir æfingar og kennt okkur almennilega á líkamann og hvað er rétt og heilbrigt fyrir dansara. Eftir það var Commercial tími þar sem við höfum svaka dívu sem kennara. Þar lærum við svona feminis dans og var það mjög áhugavert þar sem ég hef aldrei lært svoleiðis. En bara gaman samt! Eftir það var ég í 4klt pásu og nýtti hana til að fara á ströndina með Eyrúnu. Svo mætti ég aftur í skólann og fór í fyrsta stepptímann minn, stepp er mjöög vanmetið! Þetta er rosa erfitt en sérstaklega því maður þarf að slaka á í ristinni sem maður er ekki vanur í ballettinum. Þetta er samt rosa gaman og maður lærir mjög mikið á einum tíma. Á fimmtudögum get ég svo aðeins sofið út en þá ég ekki að mæta í skólann fyrr en klukkan 10.45 en þá er stepptími. Svo er jazz, ballett og söngur. Ég var búin að vera rosa stressuð fyrir sönginum en ég er mjög feimin að nota röddina fyrir framan aðra og hef alltaf verið það. Ég ákvað samt bara í tímanum að láta eins og mér þætti þetta ekkert mál og bara skella mér í djúpu lögina án þess að pæla mikið. Og vá hvað ég var stolt af mér eftir á! Þetta var ekki eins mikið mál og ég hafði ímyndað mér og kennarinn var líka rosa næs og þæginlegur og greinilega góður í sínu fagi. Svo er hópurinn minn líka frábær, það er enginn eitthvað svona að dæma, við erum öll bara í þessu saman. Eftir söngtímann er svo alltaf independent study en þá fáum við stúdíó og eigum að vinna sjálf í því sem við þurfum að gera. Við eigum til dæmis fyrir næstu viku að vera búin að pikka upp stuttan sólo á netinu og sýna hann. En ég var bara of þreytt eftir daginn þannig ég ákvað að fara heim og snemma að sofa og gera verkefnið núna um helgina frekar. Svo í gær (föstudag) byrjaði dagurinn á Professional Studies en það er bóklegur tími fyrir alla á fyrsta ári. Maðurinn sem kennir er ítalskur og talar með svaka hreim þannig ég skildi eiginlega bara annaðhvert orð. En við eigum víst að skrifa einhverja ritgerð á þessari önn og gera einhver verkefni. Eftir bóklega tímann var nútímadans, commercial og svo ballett. Ballettkennarinn ákvað að drepa okkur fyrst þetta væri svona seinasti tími vikunnar þannig við gerðum allar erfiðustu æfingarnar tvisvar sinnum. Ég hélt myndi detta niður dauð. Ekki nóg með það heldur vorum við líka eð auditions þennan dag, en við fengum samt góða pásu fyrst. Á öðru ári þurfa sem sagt allir að semja dansverk og velja dansara á fyrsta ári. Þannig þessar auditions voru fyrir annað árið til að velja sér dansara. Við gerðum ballett, nútímadans, improv, contact improv, leiklist og hip hop. Leiklistin var mjög skrautleg og erfitt að fara út fyrir þægindarammann en okkur tókst það öllum! Hip hop dansinn var líka svakalegur en það var einhver svaka hip hop gella að kenna okkur stuttan dans á 5mín og fyrir fólk eins og mig, sem hefur aldrei lært hip hop, var það smá erfitt. En eftir auditionið fóru allir heim og svo var Freshers partý um kvöldið. Það var semsagt líka fyrstu vikuna á fimmtudeginum og föstudeginum og svo á miðvikudeginum var líka með kennurunum. En í gær þegar ég kom heim lagðist ég aðeins uppí rúm og ætlaði aðeins bara að loka augunum og fara svo í partýið en þá vaknaði ég ekki aftur fyrr en kl. 3 um nóttina! Hahah þannig ég fór svo bara aftur að sofa og vaknaði kl. 13 í dag, svaf sem sagt í 16klt í nótt enda búin á því eftir fyrstu vikuna.

Í dag þarf ég svo bara að gera nokkra hluti sem ég er búin að fresta, setja í þvott, fara út með ruslið, versla, þrífa og allskonar svona fullorðinsdót hehe. En annars er bara allt gott að frétta af mér, er búin að fara mjög mikið út fyrir þægindarammann á þessari viku og hlakka til að fara ennþá lengra og þroskast sem manneskja og dansari hérna á Spáni!

Adios!

-A.G. (komin með nýtt nickname því það getur enginn sagt Auður hérna)

Likes

Comments

Hæhæ!

Ég er alveg ný í þessu bloggdæmi þannig ég er ennþá bara að læra á þetta :P

Hérna ætla ég semsagt að leyfa ykkur að fylgjast með lífi mínu á Spáni þar sem ég mun vera næstu 3 árin að stunda dansnám við Institute of the Arts í Barcelona.
Núna í vor fór ég sem sagt í nokkrar inntökuprufur erlendis í dansskóla sem mér fannst áhugaverðir og svo seinna fékk ég að vita að ég væri komin inn í tvo skóla og fékk þá að velja á milli. Að lokum valdi ég þennan skóla vegna þess t.d. hve fjölbreytt námið er, hér mun ég læra ballett, nútímadans, jazz, stepp, leiklist, söng, hip hop og lengi mætti telja! Einnig leist mér svo vel á umhverfið og skólann sjálfan, skólinn er staddur í litlum strandarbæ aðeins fyrir utan Barcelona og er skólinn frekar nýlegur. Það sem heillaði mig líka var bara andinn í skólanum og kennararnir. Þegar ég fór í prufurnar voru allir svo næs en samt sá maður alveg hvað þetta var strangt kerfi og mikill agi. Ég sjálf lærði rosa mikið í bara prufunum sjálfum, heyrði hluti sem ég hafði aldrei heyrt áður og munu hjálpa mér í framtíðinni. Svo er auðvitað auka plús að búa á Spáni þar sem veðrið þar er kannski pinkuponsu lítið betra en hér á Íslandi hehe. 

Fyrir þá sem þekkja mig lítið og vita ekkert um mig þá byrjaði ég í samkvæmisdönsum þegar ég var 3 ára. 5 ára flutti ég mig yfir í Ballettskóla Eddu Scheving þar sem ég var í 5 ár og 10 ára fór ég svo í Listdansskóla Íslands þar sem ég var í 8 ár. Eftir þessi 8 ár þurfti ég að taka mér smá pásu og fór þá í hálfs árs pásu sem ég nýtti í að prufa hluti sem ég hafði alltaf langað til að prufa áður. Ég æfði box, frjálsar og fór aftur í fimleika, en ég æfði líka fimleika þegar ég var lítil. Eftir þetta hálfa ár fann ég hvað ég saknaði dansins mikið og fór þá í Danslistarskóla JSB og útskrifaðist þaðan núna í vor.
​ Ég er uppalin í Grafarvogi og hef búið þar síðan í man eftir mér, var í grunnskóla þar og fór svo í Menntaskólann í Hamrahlíð á Listdansbraut. Ég var ekki alveg að fýla mig í MH og var því bara eitt ár þar og skipti svo yfir Í Verzlunarskóla Íslands á viðskiptabraut. Verzló tekur ekki eins mikið tillit til dansins og MH gerði og var því töluverð vinna að sinna bæði námi og dansinum vel en góð samskipti við námsráðgjafa og kennara nýttist mér þar og ég þraukaði að lokum í gegnum þetta. 

Dansinn hefur alltaf verið stór partur af lífi mínu og ég gæti ekki ímyndað mér að vera án hans. Það er svo margt sem hann gefur mér sem erfitt er að útskýra ef ég má vera smá væmin hehö. Ég hef alltaf verið mjög feimin og er ekki mikið fyrir að tjá mig, en í dansinum þá fæ ég útrás og tjái mig í gegnum hreyfingar. Ef mér líður illa þá fæ ég oft ákveðna þörf til að komast í dansstúdíó og dansa og sama gildir ef ég er glöð. Svo auðvitað hefur dansinn styrkt mig bæði líkamlega og andlega og hjálpað mér að vera meðvitaðri um líkamann minn. Í dansinum hef ég líka kynnst stelpunum sem eru mínar bestu vinkonur í dag og einnig kynnst svo mikið af frábæru fólki sem hefur gefið mér innblástur og trú á sjálfri mér í gegnum lífið. 

Núna á þriðjudaginn, 12. september mun ég sem sagt flytja til Spánar og ætla foreldrar mínir að koma með mér út og vera með mér fyrstu 5 dagana. Stuðningur frá þeim seinustu árin hefur verið ómetanlegur og er ég mjög þakklát fyrir það þó ég gleymi stundum að segja þeim það..​
​Ég fékk litla stúdíóíbúð í hverfi sem heitir San Pere de Ribes og er að leigja hjá indælli konu sem er búin að vera í sambandi við mömmu núna seinustu mánuði. Hún á 12 ára stelpu sem langar einmitt að læra dans í skólanum mínum þegar hún verður eldri. Konan stakk uppá því að ég myndi kenna dóttur hennar smá ensku og gefa mér smá vasapening í staðinn og ég hlakka mjög mikið til að kynnast þeim mæðgunum. Ég er mjög fegin að hafa því einhvern aðila sem ég mun geta leitað til ef ég þarf en þær mæðgurnar búa sem sagt bara í sama húsi, á hæðinni fyrir ofan. Mamman ætlar að lána mér hjól þannig ég mun geta hjólap í skólann en annars myndi taka bara c. 8 mínútur að taka bus! 

Skólinn sjálfur byrjar 18. september og ég get ekki beðið! Ég er búin að vera að bíða svo lengi eftir að fara út, fara alein í glænýtt umhverfi og upplifa nýja hluti og kynnast nýju fólki. Samt sem áður verður mjög erfitt að kveðja alla en sem betur gerir tæknin í dag okkur kleift að tala við fólkið okkar eins oft og mikið og við viljum og þurfum. Svo fæ ég kannski líka nokkrar heimsóknir sem ég er mjöög spennt fyrir! Núna um helgina er ég á fullu að kveðja alla og gera allt reddý. Að pakka lífinu sínu niður í eina stóra ferðatösku er svo mikið erfiðara en mig grunaði, en sem betur fer get ég troðið smá fötum í töskurnar hjá mömmu og pabba hehe. Á mánudaginn er svo seinasti vinnudagurinn minn í leiksskólanum sem ég vann í í sumar, ég viðurkenni alveg að ég er orðin stressuð að þurfa að kveðja krakkana þar. Hvað þá mín eigin bróðurbörn, og litlu frændsystkinin mín! Börnin stækka svo fljótt og það erfiðasta við að flytja erlendis er án efa að missa af öllum stundunum með börnunum. En þeir sem þekkja mig vita að ég er mjög mikil barnamanneskja og elska fátt meira en að fá knús frá litlu krílunum. Eeeen ég þarf að hugsa um mig og það sem ég þarf að gera núna, maður getur ekki gert allt! 

Ætla að segja þetta gott í bili þar sem ég er líka að verða sein í afmæli hjá frænku minni og bestu vinkonu (ég á það svolítið til að vera á seinustu stundu alltaf..). Ég á eftir að þróa þetta blogg og breyta því og bæta og ætla að taka góðan tima í það þegar ég kem út og blogga svo aftur fljótlega eftir skólabyrjun!


- Auður Huld


Likes

Comments