Header

Hæhæ!

Ég er alveg ný í þessu bloggdæmi þannig ég er ennþá bara að læra á þetta :P

Hérna ætla ég semsagt að leyfa ykkur að fylgjast með lífi mínu á Spáni þar sem ég mun vera næstu 3 árin að stunda dansnám við Institute of the Arts í Barcelona.
Núna í vor fór ég sem sagt í nokkrar inntökuprufur erlendis í dansskóla sem mér fannst áhugaverðir og svo seinna fékk ég að vita að ég væri komin inn í tvo skóla og fékk þá að velja á milli. Að lokum valdi ég þennan skóla vegna þess t.d. hve fjölbreytt námið er, hér mun ég læra ballett, nútímadans, jazz, stepp, leiklist, söng, hip hop og lengi mætti telja! Einnig leist mér svo vel á umhverfið og skólann sjálfan, skólinn er staddur í litlum strandarbæ aðeins fyrir utan Barcelona og er skólinn frekar nýlegur. Það sem heillaði mig líka var bara andinn í skólanum og kennararnir. Þegar ég fór í prufurnar voru allir svo næs en samt sá maður alveg hvað þetta var strangt kerfi og mikill agi. Ég sjálf lærði rosa mikið í bara prufunum sjálfum, heyrði hluti sem ég hafði aldrei heyrt áður og munu hjálpa mér í framtíðinni. Svo er auðvitað auka plús að búa á Spáni þar sem veðrið þar er kannski pinkuponsu lítið betra en hér á Íslandi hehe. 

Fyrir þá sem þekkja mig lítið og vita ekkert um mig þá byrjaði ég í samkvæmisdönsum þegar ég var 3 ára. 5 ára flutti ég mig yfir í Ballettskóla Eddu Scheving þar sem ég var í 5 ár og 10 ára fór ég svo í Listdansskóla Íslands þar sem ég var í 8 ár. Eftir þessi 8 ár þurfti ég að taka mér smá pásu og fór þá í hálfs árs pásu sem ég nýtti í að prufa hluti sem ég hafði alltaf langað til að prufa áður. Ég æfði box, frjálsar og fór aftur í fimleika, en ég æfði líka fimleika þegar ég var lítil. Eftir þetta hálfa ár fann ég hvað ég saknaði dansins mikið og fór þá í Danslistarskóla JSB og útskrifaðist þaðan núna í vor.
​ Ég er uppalin í Grafarvogi og hef búið þar síðan í man eftir mér, var í grunnskóla þar og fór svo í Menntaskólann í Hamrahlíð á Listdansbraut. Ég var ekki alveg að fýla mig í MH og var því bara eitt ár þar og skipti svo yfir Í Verzlunarskóla Íslands á viðskiptabraut. Verzló tekur ekki eins mikið tillit til dansins og MH gerði og var því töluverð vinna að sinna bæði námi og dansinum vel en góð samskipti við námsráðgjafa og kennara nýttist mér þar og ég þraukaði að lokum í gegnum þetta. 

Dansinn hefur alltaf verið stór partur af lífi mínu og ég gæti ekki ímyndað mér að vera án hans. Það er svo margt sem hann gefur mér sem erfitt er að útskýra ef ég má vera smá væmin hehö. Ég hef alltaf verið mjög feimin og er ekki mikið fyrir að tjá mig, en í dansinum þá fæ ég útrás og tjái mig í gegnum hreyfingar. Ef mér líður illa þá fæ ég oft ákveðna þörf til að komast í dansstúdíó og dansa og sama gildir ef ég er glöð. Svo auðvitað hefur dansinn styrkt mig bæði líkamlega og andlega og hjálpað mér að vera meðvitaðri um líkamann minn. Í dansinum hef ég líka kynnst stelpunum sem eru mínar bestu vinkonur í dag og einnig kynnst svo mikið af frábæru fólki sem hefur gefið mér innblástur og trú á sjálfri mér í gegnum lífið. 

Núna á þriðjudaginn, 12. september mun ég sem sagt flytja til Spánar og ætla foreldrar mínir að koma með mér út og vera með mér fyrstu 5 dagana. Stuðningur frá þeim seinustu árin hefur verið ómetanlegur og er ég mjög þakklát fyrir það þó ég gleymi stundum að segja þeim það..​
​Ég fékk litla stúdíóíbúð í hverfi sem heitir San Pere de Ribes og er að leigja hjá indælli konu sem er búin að vera í sambandi við mömmu núna seinustu mánuði. Hún á 12 ára stelpu sem langar einmitt að læra dans í skólanum mínum þegar hún verður eldri. Konan stakk uppá því að ég myndi kenna dóttur hennar smá ensku og gefa mér smá vasapening í staðinn og ég hlakka mjög mikið til að kynnast þeim mæðgunum. Ég er mjög fegin að hafa því einhvern aðila sem ég mun geta leitað til ef ég þarf en þær mæðgurnar búa sem sagt bara í sama húsi, á hæðinni fyrir ofan. Mamman ætlar að lána mér hjól þannig ég mun geta hjólap í skólann en annars myndi taka bara c. 8 mínútur að taka bus! 

Skólinn sjálfur byrjar 18. september og ég get ekki beðið! Ég er búin að vera að bíða svo lengi eftir að fara út, fara alein í glænýtt umhverfi og upplifa nýja hluti og kynnast nýju fólki. Samt sem áður verður mjög erfitt að kveðja alla en sem betur gerir tæknin í dag okkur kleift að tala við fólkið okkar eins oft og mikið og við viljum og þurfum. Svo fæ ég kannski líka nokkrar heimsóknir sem ég er mjöög spennt fyrir! Núna um helgina er ég á fullu að kveðja alla og gera allt reddý. Að pakka lífinu sínu niður í eina stóra ferðatösku er svo mikið erfiðara en mig grunaði, en sem betur fer get ég troðið smá fötum í töskurnar hjá mömmu og pabba hehe. Á mánudaginn er svo seinasti vinnudagurinn minn í leiksskólanum sem ég vann í í sumar, ég viðurkenni alveg að ég er orðin stressuð að þurfa að kveðja krakkana þar. Hvað þá mín eigin bróðurbörn, og litlu frændsystkinin mín! Börnin stækka svo fljótt og það erfiðasta við að flytja erlendis er án efa að missa af öllum stundunum með börnunum. En þeir sem þekkja mig vita að ég er mjög mikil barnamanneskja og elska fátt meira en að fá knús frá litlu krílunum. Eeeen ég þarf að hugsa um mig og það sem ég þarf að gera núna, maður getur ekki gert allt! 

Ætla að segja þetta gott í bili þar sem ég er líka að verða sein í afmæli hjá frænku minni og bestu vinkonu (ég á það svolítið til að vera á seinustu stundu alltaf..). Ég á eftir að þróa þetta blogg og breyta því og bæta og ætla að taka góðan tima í það þegar ég kem út og blogga svo aftur fljótlega eftir skólabyrjun!


- Auður Huld


Blog using your mobile phone - One of the best blogging apps on the market - Click here

Likes

Comments